Jóhann Berg Guðmundsson átti frábæra innkomu hjá Burnley í kvöld þegar hann tryggði liðinu sigur á Sheffield United, 2:0, með tveimur mörkum í uppgjöri efstu liða ensku B-deildarinnar í knattspyrnu.
Jóhann var á meðal varamanna Burnley, sem hafði fyrir leikinn þegar tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni þó liðið ætti enn sjö leiki eftir.
Hann kom inn á sem varamaður í hálfleik og skoraði fyrir Burnley, 1:0, á 60. mínútu.
Tíu mínútum síðar var Jóhann Berg aftur á ferð og kom Burnley í 2:0.
Burnley er þá komið með fjórtán stiga forskot á Sheffield United á toppi deildarinnar, með 90 stig. Sheffield United er með 76 stig og stendur áfram vel að vígi með að fylgja Burnley upp því liðið á einn leik til góða á Luton sem er í þriðja sæti með 71 stig.