Áskorunin augljós

Dean Smith er tekinn við Leicester City út tímabilið.
Dean Smith er tekinn við Leicester City út tímabilið. AFP

Dean Smith hefur verið ráðinn bráðabirgðastjóri Leicester City í knattspyrnu karla til loka tímabilsins. Brendan Rodgers var rekinn á dögunum eftir afleitt gengi.

Leicester er nú í 19. og næstneðsta sæti með aðeins 25 stig eftir 30 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Smith fer ekki í grafgötur með að áskorunin sem bíði hans og þjálfarateymisins sé mikil en hefur þó fulla trú á því að Leicester bjargi sér.

„Áskorunin sem við stöndum andspænis er augljós, en er áskorun sem ég og þjálfarateymi höfum upplifað áður,“ sagði hann í samtali við heimasíðu Leicester.

Smith stýrði Norwich City síðari hluta síðasta tímabils, með Craig Shakespeare sér við hlið líkt og nú, en tókst ekki að forða liðinu frá falli.

Útlitið hjá Leicester er þrátt fyrir allt ekki jafn dökkt og á síðasta tímabili þar sem óvenju mikill fjöldi liða eru hluti af fallbaráttunni þetta tímabilið og Leicester aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti.

„Með þau gæði sem eru til staðar hjá þessu liði og þann fjölda leikja sem eru eftir í huga er þetta svo sannarlega framkvæmanlegt,“ bætti Smith við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert