Knattspyrnudómarinn Michael Salisbury mun ekki dæma um næstu helgi eftir að hafa gerst uppvís að mistökum í leik Tottenham Hotspur og Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni síðastliðinn laugardag, er hann sinnti störfum VAR-dómara.
Salisbury yfirsást augljós vítaspyrna þegar Pierre-Emile Höjbjerg, miðjumaður Tottenham, steig á fót Kaoru Mitoma, vængmanns Brightons, innan vítateigs í síðari hálfleik.
Þá var staðan 1:1 en Tottenham vann leikinn að lokum 2:1. PGMOL, samtök atvinnudómara á Englandi, sendu Brighton skriflega afsökunarbeiðni vegna mistakanna.
Salisbury gerði fleiri mistök í leiknum eins og farið var yfir í Vellinum á Símanum Sport á páskadag.
Hann fær ekki úthlutaðan leik sem VAR-dómari um næstu helgi þegar 31. umferð ensku úrvalsdeildarinnar fer fram.