Finnski viðskiptajöfurinn Thomas Zilliacus hefur ákveðið að draga tilboð sitt í Manchester United til baka eftir að núverandi eigendur, hin bandaríska Glazer-fjölskylda, ákváðu að draga söluferlið enn á langinn og óska eftir þriðja tilboði í félagið frá áhugasömum kaupendum.
Zilliacus hafði ásamt Sheikh Jassim bin Hamad Al-Thani og Sir Jim Ratcliffe, stærsta einstaka landeiganda á Íslandi, lagt fram tvö tilboð en Finnanum þykir nú nóg um og vill ekki láta draga sig á asnaeyrunum.
„Þessar tafir munu gera nýjum eiganda mjög erfitt fyrir þegar kemur að því að setja saman sigurlið fyrir næsta tímabil.
Söluferlið er að breytast í farsa, þar sem Glazer-fjölskyldan sýnir félaginu enga virðingu. Ég, Jim Ratcliffe og Sheikh Jassim vorum allir reiðubúnir að semja um kaup á United.
Þess í stað ákveður Glazer-fjölskyldan að fara með söluferlið í þriðju umferð. Ég mun ekki taka þátt í farsa sem er settur á svið til þess að hámarka gróða seljenda á kostnað Manchester United,“ skrifaði Zilliacus á Twitter-aðgangi sínum í gær.