Kólumbíski knattspyrnumaðurinn Luis Díaz, vængmaður Liverpool, er loksins orðinn leikfær eftir að hafa verið frá vegna meiðsla undanfarið hálft ár.
Díaz meiddist á hné snemma á yfirstandandi tímabili. Hann hóf æfingar að nýju í desember en þá tóku meiðslin sig upp að nýju og gekkst hann þá undir aðgerð.
Undanfarnar vikur hefur Díaz hægt og bítandi tekið meiri þátt í æfingum með Liverpool og sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi í dag að hann verði í leikmannahópnum þegar liðið heimsækir Leeds United í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi mánudagskvöld.
„Hann er 100 prósent klár á æfingum. Hann verður í hópnum,“ sagði Klopp.