Brighton & Hove Albion gerði frábæra ferð til Lundúna og vann endurkomusigur á Chelsea, 2:1, á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.
Conor Gallagher kom heimamönnum í Chelsea í forystu eftir 13 mínútna leik.
Danny Welbeck, sem var nýkominn inn á sem varamaður fyrir hinn meidda Evan Ferguson, jafnaði hins vegar metin fyrir Brighton þremur mínútum fyrir leikhlé.
Hinn 19 ára gamli Paragvæi, Julio César Enciso, sem einnig kom inn á sem varamaður í fyrri hálfleik, fyrir hinn meidda Joel Veltman, skoraði svo sigurmark gestanna á 70. mínútu.
Brighton heldur sér kyrfilega í baráttunni um Evrópusæti þar sem liðið er nú með 49 stig í sjöunda sæti.
Chelsea heldur kyrru fyrir í 11. sæti með 39 stig.
Fulham gerði þá góða ferð til Liverpool og hafði betur gegn Everton, 3:1, á Goodison Park.
Um miðjan fyrri hálfleikinn kom Harrison Reed Fulham yfir áður en Dwight McNeil jafnaði metin á 35. mínútu.
Snemma í síðari hálfleik kom Harry Wilson gestunum yfir að nú áður en Daniel James innsiglaði sigurinn um miðjan hálfleikinn.
Nýliðar Fulham eru áfram í efri hlutanum, 10. sæti, en nú með 42 stig.
Everton er í 17. sæti og aðeins fyrir ofan fallsæti á markatölu.
Frábært gengi Crystal Palace eftir að Roy Hodgson tók við að nýju heldur áfram. Í dag vann liðið botnlið Southampton 2:0.
Eberechi Eze skoraði bæði mörk Palace í síðari hálfleik og sá þannig til þess að liðið vann sinn þriðja deildarleik í röð með Hodgson við stjórnvölinn og færis fallbaráttuna óðfluga.
Palace er nú í 12. sæti með 36 stig, níu stigum fyrir ofan fallsæti.
Loks mættust Wolverhampton Wanderers og Brentford í Wolverhampton þar sem Úlfarnir höfðu betur, 2:0.
Diego Costa kom heimamönnum yfir á 27. mínútu áður en varamaðurinn Hwang Hee-Chan innsiglaði sigurinn á 69. mínútu.
Úlfarnir eru þar með sömuleiðis að fjarlægjast fallsvæðið, eru með 34 stig í 13. sæti, sjö stigum fyrir ofan fallsæti.