Haaland jafnaði markametið í sigri City

Erling Haaland skorar fyrra mark sitt, úr vítaspyrnu, í dag.
Erling Haaland skorar fyrra mark sitt, úr vítaspyrnu, í dag. AFP/Lindsey Parnaby

Norski markahrókurinn Erling Haaland gerði sér lítið fyrir og jafnaði markamet Mohamed Salah í ensku úrvalsdeildinni frá stofnun hennar árið 1992 þegar hann skoraði tvívegis í 3:1-sigri Manchester City á Leicester City í dag.

Haaland þurfti aðeins fyrri hálfleikinn en staðan að honum loknum var 3:0. Fór hann svo af velli í leikhléi.

John Stones kom City yfir eftir aðeins fimm mínútna leik og Haaland tvöfaldaði forystuna með marki úr vítaspyrnu aðeins átta mínútum síðar.

Haaland var svo aftur á ferðinni á 25. mínútu og jafnaði þar með markamet Salah frá árinu 2018, en hann skoraði þá 32 mörk í 36 leikjum.

Norðmaðurinn hefur skorað mörkin sín 32 í aðeins 28 leikjum og enn á Manchester City átta leiki eftir í deildinni.

Afar líklegt verður því að teljast að Haaland slái metið áður en tímabilið er úti.

Kelechi Iheanacho minnkaði muninn fyrir Leicester í síðari hálfleik og komust gestirnir nokkrum sinnum nálægt því að bæta við mörkum.

Allt kom þó fyrir ekki og tveggja marka sigur ríkjandi Englandsmeistaranna niðurstaðan.

Manchester City er áfram í öðru sæti deildarinnar en nú aðeins þremur stigum á eftir toppliði Arsenal.

Leicester er sem fyrr í í 19. og næstneðsta sæti, tveimur stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert