Hádramatískur sigur Bournemouth á Tottenham

Bournemouth-menn fagna marki Dominic Solanke.
Bournemouth-menn fagna marki Dominic Solanke. AFP/Adrian Dennis

Bournemouth vann ótrúlegan útisigur á Tottenham, 3:2, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í Norður-Lundúnum í dag. 

Son Heung-min kom Tottenham yfir á 14. mínútu eftir undirbúning frá Ivan Perisic en Matias Vina jafnaði síðar metin fyrir Bournemouth á 38. mínútu, 1:1, sem voru hálfleikstölur. 

Dominic Solanke kom svo Bournemouth óvænt yfir á 51. mínútu en varamaðurinn Arnaut Danjuma jafnaði metin fyrir Tottenham á 88. mínútu. 

Tottenham-maðurinn Richarlison fékk svo dauðafæri á fimmtu mínútu uppbótartíma en skallaði boltann framhjá.

Í næstu sókn fékk Dango Ouattara boltann vinstra megin í teignum, lék léttilega á Danann Pierre-Emile Höjbjerg og smellti boltanum í fjær, 3:2, og ótrúlegur sigur Bournemouth staðreynd. 

Bournemouth-menn eru nú með 33 stig í 14. sæti deildarinnar, sex stigum fyrir ofan fallsæti. Tottenham er í fimmta sæti með 53.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert