Ollie Watkins skoraði tvö er Aston Villa fór létt með Newcastle, 3:0, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á Villa Park í Birmingham í dag.
Bæði lið komu inn í leikinn í fantaformi en Aston Villa hafði unnið sex af síðustu sjö leikjum sínum og Newcastle fimm í röð.
Jacob Ramsey kom Villa yfir á elleftu mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Ollie Watkins.
Watkins hélt að hann hefði komið Villa 2:0 yfir á 61. mínútu er hann skoraði en markið var síðar dæmt af í VAR-sjánni. Það gerði þó lítið til því fjórum mínútum síðar skoraði Watkins aftur, og í þetta sinn löglegt mark og Villa-menn 2:0 yfir.
Ramsey endurgreiddi Watkins svo greiðan er hann lagði upp annað mark framherjans og þriðja mark Villa-manna á 83. mínútu og innsiglaði sterkan heimasigur, 3:0.
Aston Villa er í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 50 stig, sex frá Newcastle sem er í þriðja sæti.