West Ham United kom til baka og gerði jafntefli við topplið Arsenal, 2:2, í kjölfar þess að hafa lent 0:2 undir eftir aðeins tíu mínútna leik þegar liðin áttust við í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Gabriel Jesus og Martin Ödegaard komu gestunum í þægilega forystu með mörkum á sjöundu og tíundu mínútu áður en Said Benrahma minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu eftir rúmlega hálftíma leik.
Snemma í síðari hálfleik fékk Arsenal einnig vítaspyrnu. Hana tók Bukayo Saka en skaut framhjá.
Í næstu sókn jafnaði Jarrod Bowen svo metin fyrir Hamrana með laglegu marki og þar við sat.
Mörkin fjögur, vítaspyrnuklúður Saka og dauðafæri sem Michail Antonio klúðraði átta mínútum fyrir leikslok má sjá í spilaranum hér að ofan.