Manchester United fór með sigur af hólmi, 0:2, gegn Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í dag. Það var Brasilíumaðurinn Antony sem skoraði fyrsta mark gestanna áður en Diogo Dalot tvöfaldaði forystuna í síðari hálfleik.
Fyrir leik voru lærisveinar Steve Cooper í 18. sæti deildarinnar og í hörku fallbaráttu. Manchester-menn sátu hinsvegar í fjórða sæti deildarinnar og gátu með sigri komist upp fyrir Newcastle.
Leikurinn fór fjörlega af stað og var ekki nema rúmlega 50 sekúndna gamall þegar fyrsta færi leiksins kom. Þar var á ferðinni Jadon Sancho sem átti skot að marki Nottingham-manna en Felipe, varnarmaður heimamanna, náði að komast fyrir það og bjargaði hreinlega marki.
Á 18. mínútu leiksins átti Bruno Fernandes hörkuskot að marki en Keylor Navas, markvörður Forest, varði frábærlega.
Heimamenn fengu hornspyrnu á 25. mínútu. Morgan Gibbs-White sneri boltann inn á teiginn þar sem Scott McKenna reis manna hæst og af honum fór boltinn í stöngina.
Það var svo á 32. mínútu leiksins sem fyrsta markið kom. Anthony Martial átti þá skot að marki sem Keylor Navas varði út í teiginn. Þar mætti Antony fyrstur manna og renndi boltanum í netið. 0:1, fyrir gestina og forystan sanngjörn miðað við gang leiksins.
Gestirnir fengu gott færi á 44. mínútu þegar boltinn hrökk af Diogo Dalot og þaðan beint til Taiwo Awoniyi sem átti hörkuskot yfir markið.
Það var svo Bruno Fernandes sem átti síðasta færi fyrri hálfleiks þegar hann skallaði fyrirgjöf Christian Eriksen framhjá markinu. Staðan, 0:1, fyrir gestina í hálfeik.
Heimamenn heimtuðu vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks þegar boltinn fór í höndina á Diogo Dalot en þar sem boltinn fór fyrst í löððina á honum og þaðan upp í höndina var ekkert dæmt.
Gestirnir fengu hornspyrnu á 50. mínútu. Bruno Fernandes lagði boltann út á Antony sem skaut að marki heimamanna en boltinn fór rétt framhjá stönginni.
Á 56. mínútu fengu Manchester-menn enn eina hornspyrnuna. Þeir tóku hana stutt og boltinn barst á Bruno Fernandes sem átti hörkuskot sem Keylor Navas varði frábærlega í þverslánna. Frábær tilþrif frá báðum.
Það var svo á 76. mínútu að Diogo Dalot tvöfaldaði forystu gestanna, 0:2. Antony fékk þá boltann úti á hægri kantinum, keyrði inn á völlinn og átti frábæra sendingu beint í hlaupið hjá Diogo Dalot sem kláraði færið einkar vel framhjá Keylor Navas.
Leikurinn fjaraði út eftir þetta og sanngjarn sigur Manchester United staðreynd. Lokatölur, 0:2, og mikilvæg stig í hús hjá lærisveinum Erik ten Hag í evrópubaráttunni.