Markaveisla Liverpool á Elland Road

Liverpool vann í kvöld stórsigur á Leeds, 6:1, á Elland Road í Leeds í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Liverpool er samt áfram í áttunda sæti deildarinnar en nú með 47 stig, tveimur stigum á eftir Brighton og níu stigum á eftir Newcastle sem er í fjórða sætinu, Meistaradeildarsætinu.

Leeds er áfram í sextánda sæti með 29 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti, en þetta er versta tap liðsins frá upphafi á heimavelli í úrvalsdeildinni.

Diogo Jota og Mohamed Salah skoruðu  tvö mörk hvor fyrir Liverpool, Cody Gakpo og Darwin Núnez eitt hvor en Luis Sinsterra skoraði mark Leeds.

Fyrstu 35 mínútur leiksins voru frekar rólegar. Liverpool var meira og minna með boltann en skapaði sér engin færi. Leeds átti hins vegar fjórar þokkalegar marktilraunir eftir snöggar sóknir á þeim tíma.

Cody Gakpo kemur Liverpool yfir á leiknum á Elland Road …
Cody Gakpo kemur Liverpool yfir á leiknum á Elland Road í kvöld. AFP/Oli Scarff

En það breyttist allt á 35. mínútu þegar Trent Alexander-Arnold brunaði inn í vítateiginn hægra megin og renndi boltanum þvert fyrir markið á Cody Gakpo sem skoraði af stuttu færi, 0:1.

Fjórum mínútum síðar vann Liverpool boltann á eigin vallarhelmingi, Diogo Jota lék upp allan völlinn og að vítateig, renndi þá til vinstri á Mohamed Salah sem skaut í hornið nær, 0:2.

Leeds komst inn í leikinn á annarri mínútu síðari hálfleiks þegar Ibrahima Konaté miðvörður Liverpool gerði slæm mistök. Luis Sinsterra hirti boltann af honum rétt utan vítateigs, lék inn í teiginn og skoraði, 1:2.

Dioto Jota var fljótur að auka forskot Liverpool á ný. Á 52. mínútu fékk hann langa þversendingu frá Curtis Jones, slapp einn gegn markverðinum og skoraði frá vítateig, 1:3.

Weston McKennie og Curtis Jones (C) eigast við á Elland …
Weston McKennie og Curtis Jones (C) eigast við á Elland Road í kvöld. AFP/Oli Scarff

Liverpool gekk á lagið. Á 64. mínútu átti liðið frábærlega útfærða skyndisókn þar sem Andy Robertson brunaði upp vinstri kantinn og sendi inn í miðjan vítateiginn á Gakpo. Hann stýrði boltanum áfram til hliðar á Mohamed Salah sem afgreiddi hann í vinstra hornið, 1:4.

Martröð Leeds hélt áfram því á 73. mínútu sendi Jordan Henderson boltann þvert fyrir markið frá hægri og Jota skoraði með viðstöðulausu skoti frá vítateigslínunni í stöng og inn, 1:5.

Darwin Nunez innsiglaði síðan sigurinn í uppbótartíma þegar hann fékk sendingu í gegnum miðja vörn Leeds og skoraði af yfirvegun, 1:6.

Leeds 1:6 Liverpool opna loka
90. mín. Darwin Núnez (Liverpool) skorar 1:6 - Alexander-Arnold með sendingu í gegnum miðja vörn Leeds, Darwin getur lagt boltann fyrir sig og rennt honum í vinstra hornið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert