„Besti leikur okkar á tímabilinu“

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP/Oli Scarff

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum hæstánægður með 6:1-sigur liðsins á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

„Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Allur leikurinn var magnaður ef fáein augnablik eru undanskilin. Við stjórnuðum leiknum glæsilega. Við spiluðu stórkostlega og vorum rólegir.

Pressan var sú besta hjá okkur í langan tíma. Uppáhaldið mitt var á annarri mínútu uppbótartíma þegar fjórir leikmenn mínir hundeltu greyið leikmann Leeds sem var með boltann. Frábært,“ sagði Klopp á blaðamannafundi eftir leik.

„Við spiluðum vel og skoruðum ótrúleg mörk. Það skiptir mig ekki máli að við skoruðum sex mörk, þetta snýst um frammistöðuna. Þetta var sigurframmistaða.

Þetta er ekki leikur sem Leeds ætti að vinna, þetta er augljós leikur sem við eigum að vinna. Það er það sem ég vildi sjá. Þetta var besti leikur okkar á tímabilinu,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert