Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, hlaut þann vafasama heiður í kvöld að verða fyrsti stjórinn í sögu félagsins til að tapa fjórum fyrstu leikjum sínum með liðið.
Lampard var ráðinn stjóri Chelsea út leiktíðina, er Graham Potter var látinn taka pokann sinn á dögunum, en lítið hefur gengið hjá liðinu undir stjórn enska landsliðsmannsins fyrrverandi.
Chelsea tapaði fyrir Real Madrid í kvöld í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, 0:2. Chelsea tapaði fyrri leiknum með sömu markatölu.
Fyrir fyrri leikinn við Real tapaði Chelsea fyrir Wolves á útivelli í ensku úrvalsdeildinni, 0:1. Á milli Evrópuleikjanna við Real tapaði Chelsea svo á heimavelli gegn Brighton, 1:2.
Chelsea vann ekki í þremur leikjum í röð áður en Lampard tók við og hefur liðið því leikið sjö leiki í röð í öllum keppnum, án þess að fagna sigri.