Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Rio Ferdinand kveðst svo gott sem hafa lagt Cristiano Ronaldo í einelti þegar þeir voru samherjar hjá Manchester United á árunum 2003 til 2009 með það fyrir augum að styrkja Portúgalann andlega.
Í samtali við ástralska útvarpsþáttinn Kyle and Jackie O sagði Ferdinand að hann og Quinton Fortune hafi verið gjarnir á að espa hann þegar þeir léku borðtennis í sameiningu.
„Hann var mun yngri en við. Þetta var kannski á mörkunum að vera einelti en var bara í því skyni að byggja hann upp, byggja upp þessa seiglu.
Við spiluðum annan hvern dag fyrir æfingar, sem hluti af upphitun. Ég var að rústa honum hægri vinstri. Hann vann mig inn á milli.
Við tveir vorum þeir bestu, eins og [Roger] Federer og [Rafael] Nadal. Hann fór nánast að gráta, hann var með svo mikið keppnisskap,“ sagði Ferdinand.