Leikmaður Chelsea skaut á eigandann

Thiago Silva.
Thiago Silva. AFP/Glyn Kirk

Thiago Silva, varafyrirliði Chelsea, er ekki sáttur við þann glundroða sem umlykur félagið um þessar mundir og kallar eftir skýrri stefnu til framtíðar.

„Þetta er erfitt augnablik fyrir félagið, sem einkennist af mikilli óákveðni. Eigendaskipti og nýir leikmenn. Við þurftum að stækka búningsklefana því þeir voru ekki nógu stórir til þess að rúma alla leikmenn liðsins.

Það jákvæða er að við erum magnaða leikmenn innan hópsins, en á hinn bóginn verða alltaf leikmenn sem eru óánægðir. Sumir komast ekki í hópinn, við keyptum átta leikmenn í janúar.

Við þurfum að staldra við og koma á fót einhverri stefnu, annars gætum við gert sömu mistök á næsta tímabili,“ sagði Silva í samtali við TNT Brasil eftir 0:2-tap fyrir Real Madríd í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.

Liðið er úr leik í öllum bikarkeppnum og siglir afar lygnan sjó í ensku úrvalsdeildinni, þar sem líkur á sæti í Evrópukeppni á næsta tímabili eru hverfandi.

Rangt skref sem er búið að taka

Líkt og hann bendir á hefur Chelsea keypt ótrúlegt magn af leikmönnum undanfarið ár eftir að Bandaríkjamaðurinn Todd Boehly eignaðist félagið. Auk mikils fjölda leikmannakaupa hefur Boehly rekið Thomas Tuchel og Graham Potter úr starfi knattspyrnustjóra.

Frank Lampard var ráðinn bráðabirgðastjóri út tímabilið en Chelsea hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum undir hans stjórn.

„Ég tel að það sé þegar búið að taka fyrsta skrefið, sem var rangt skref en það er búið að taka það. Við getum ekki kennt knattspyrnustjórunum um og sleppt því að taka sjálfir ábyrgð.

Það er allt of mikið rætt um að skipta á stjórum. Ég lít svo á að við leikmennirnir verðum líka að taka ábyrgð. Við höfum haft þrjá stjóra á þessu tímabili, auk Bruno, þar sem okkur tókst ekki að vinna leiki.

Við töpuðum í dag [í gærkvöldi] og með Lampard hefur okkur ekki tekist að vinna. Stjórinn getur aðeins valið 11 leikmenn úr rúmlega 30 manna hópi. Það er erfitt.

Það mun alltaf vera einhver ósáttur því það geta ekki allir spilað. Allir eru að tala um þjálfarann en við verðum að líta á það sem hefur farið úrskeiðis og reyna að breyta því,“ bætti Silva við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert