Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu og lykilmaður Tottenham um árabil, er undir smásjánni hjá frönsku meisturunum París SG.
Le Parisien segir í dag að blaðið hafi heimildir fyrir því að PSG undirbúi nú tilboð í Kane í sumar. Félagið sjái hann sem þann leikmann sem liðið vanti til að fara alla leið og vinna Meistaradeild Evrópu sem hefur verið draumur forráðamanna félagsins frá því það komst í eigu auðmanna frá Katar.
Kane hefur leikið með Tottenham allan sinn feril og hefur skorað 273 mörk i 428 mótsleikjum fyrir félagið. Hann er enn aðeins 29 ára gamall og er samningsbundinn Lundúnafélaginu til sumarsins 2024.