Sheffield United vann í gær dýrmætan 1:0-sigur á Bristol City í ensku B-deildinni í knattspyrnu karla og er liðið nú komið langt með að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni.
James McAtee, lánsmaður frá Manchester City, skoraði sigurmark heimamanna í Sheffield 13 mínútum fyrir leikslok.
Sheffield United er í öðru sæti deildarinnar, sem gefur beint sæti í úrvalsdeildinni, með 82 stig þegar fjórar umferðir eru óleiknar.
Luton Town er í þriðja sæti með 74 stig og er útlitið því orðið afar gott fyrir Sheffield.
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley voru fyrir margt löngu búnir að tryggja sæti sitt í úrvalsdeildinni og er liðið komið langt með að vinna B-deildina, enda tíu stigum fyrir ofan Sheffield United.