Föstudagsleikurinn þessa helgina í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta var leikur Arsenal og Southampton. Liðin mættust á Emirates-leikvanginum í London og buðu upp á sannkallaða veislu en leikar enduðu með 3:3 jafntefli.
Fyrir leik þá var Arsenal í efsta sæti deildarinnar með 74 stig, fjórum stigum á undan Manchester City. Southampton var í neðsta sæti deildarinnar með 23 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Leikurinn hófst með miklum látum en eftir 30 sekúndna leik voru gestirnir komnir yfir. Aaron Ramsdale, markvörður Arsenal, ætlaði að gefa boltann á Thomas Partey en Argentínumaðurinn Carlos Alcaras var ekki á því að leyfa því að gerast. Hann komst inn í sendinguna og skoraði framhjá hjálparlausum markverði Arsenal-manna og staðan orðin 0:1.
Á 14. mínútu sló þögn á áhorfendur þegar fyrrum Arsenal-maðurinn, Theo Walcott, skoraði annað mark gestanna. Martin Ödegaard átti þá slæma sendingu inni á miðju vallarins, gestirnir komust inn í hana og geystust í sókn. Carlos Alcaraz fékk boltann og renndi honum innfyrir á Theo Walcott sem kláraði færið sitt frábærlega, 0:2.
Heimamenn héldu krísufund úti á miðjum velli sem skilaði árangri, því að á 20. mínútu hafði Gabriel Martinelli minnkað muninn. Martin Ödegaard senti þá boltann upp hægri kantinn á Bukayo Saka sem fór illa með Romain Perraud, varnarmann Southampton, áður en hann sendi boltann fyrir markið. Þar var Brasilíumaðurinn, Martinelli, einn og óvaldaður og kláraði hann færið sitt vel með viðstöðulausu skoti. Staðan orðin, 1:2, og stuðningsmenn Arsenal fengu trúna aftur.
Arsenal komst nálægt því að jafna leikinn rétt fyrir hálfleik þegar Ben White átti skalla að marki eftir hornspyrnu en Carlos Alcaraz bjargaði á marklínu og sá til þess að Southampton var yfir í hálfleik, 1:2.
Seinni hálfleikurinn þróaðist eins og sá fyrri. Heimamenn sóttu og reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en gestirnir vörðust hetjulega. Það kom því öllum á óvart þegar gestirnir skoruðu þriðja mark sitt í leiknum á 66. mínútu. James Ward-Prowse tók þá honspyrnu sem fór á kollinn á Armel Bella-Kotchap. Sá þýski skallaði boltann á fjær stöngina þar sem Duja Duleta-Car mætti og stangaði boltann í netið. Staðan orðin 1:3 og stuðningsmenn Arsenal trúðu ekki sínum eigin augum á meða stuðningsmenn gestanna fögnuðu ákaft í stúkunni.
Það héldu kannski margir að Arsenal-menn myndu ekki koma til baka eftir þetta en heimamenn voru á öðru máli.
Á 88. mínútu minnkaði fyrirliði Arsenal, Martin Ödegaard, muninn. Hann fékk boltann úti á hægri kantinum, lék honum inn á miðjuna og skaut að marki. Skotið var gott og réð Gavin Bazunu ekki við það, staðan orðin 2:3.
Uppbótartími í lok leiks var langur, 8 mínútur. Á annarri mínútu uppbótartímans jöfnuðu heimamenn leikinn. Reiss Nelson átti þá skot sem Bazunu varði út í teiginn, þar mætti Bukayo Saka og setti boltann í netið. Staðan orðin 3:3 og enn nægur tími til að skora annað mark.
Heimamenn reyndu hvað þeir gátu að stela sigrinum. Leandro Trossard átti skot í slá og Gabriel Jesus vildi fá dæmda vítaspyrnu en allt kom fyrir ekki og leikar enduðu með 3:3 jafntefli.
Úr því sem komið var eru heimamenn kannski sáttir með stigið en það hjálpar þeim ekki mikið í baráttunni um titilinn. Þeir eru með 5 stiga forystu á Manchester City en þeir ljósbláu eiga tvo leiki til góða á Arsenal. Ljóst er að Arsenal verður að mæta til Manchester á miðvikudaginn og sækja til sigurs, annars gæti verið að titillinn renni þeim úr greipum.
Gestirnir eru væntanlega svekktir að hafa á endanum aðeins fengið stig út úr þessum leik en stigið liftir þeim af botninum og upp í 19. sætið. Ljóst er að baráttan á botni deildarinnar verður mikil og hörð og hvert stig telur.