Brentford og Aston Villa skildu jöfn, 1:1, þegar liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Á sama tíma vann Leicester City afar mikilvægan sigur á Wolverhampton Wanderers, 2:1.
Í leik Brentford og Villa kom Ivan Toney heimamönnum í Brentford yfir á 65. mínútu eftir góðan undirbúning Bryan Mbeumo.
Þremur mínútum fyrir leikslok jafnaði Douglas Luiz hins vegar metin fyrir Villa og þar við sat.
Þar með er sigurgöngu Villa lokið, en liðið hafði fyrir leikinn unnið fimm deildarleiki í röð og er raunar taplaust í níu deildarleikjum, þar sem Villa hefur unnið sjö leiki og gert tvö jafntefli.
Brentford er í tíunda sæti með 44 stig og Villa er í því sjötta með 51 stig.
Í leik Leicester City og Úlfanna kom Matheus Cunha gestunum frá Wolverhampton í forystu eftir 13 mínútna leik.
Kelechi Iheanacho jafnaði metin fyrir Leicester með marki úr vítaspyrnu á 37. mínútu.
Timothy Castagne fullkomnaði svo endurkomu heimamanna með því að skora sigurmark Leicester stundarfjórðungi fyrir leikslok.
Með sigrinum fór Leicester upp úr fallsæti og situr nú í 17. sæti með 28 stig, jafnmörg og Everton sæti neðar en með betri markatölu.
Úlfarnir eru í 13. sæti með 34 stig, sex stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Crystal Palace og Everton áttust þá við í Lundúnum þar sem gestunum frá Liverpool tókst að binda enda á þriggja leikja sigurgöngu Palace eftir að Roy Hodgson tók við stjórnartaumunum að nýju.
Lauk leiknum með markalausu jafntefli. Everton lék einum manni færri síðustu mínúturnar eftir að Mason Holgate fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt tíu mínútum fyrir leikslok.
Palace er komið langt með að tryggja sæti sitt í úrvalsdeildinni að ári þar sem liðið er í tólfta sæti með 37 stig, níu stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Fallbaráttan er æsispennandi þar sem botnlið Southampton er með 25 stig, Nottingham Forest er sæti ofar með 27 stig og þá koma Everton og Leicester með 28 stig og Leeds er í 16. sæti með 29 stig.