Enn syrtir í álinn hjá Leeds

Harry Wilson í þann mund að skora glæsilegt mark sitt …
Harry Wilson í þann mund að skora glæsilegt mark sitt í dag. AFP/Justin Tallis

Fulham vann góðan sigur á Leeds United, 2:1, í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Harry Wilson heimamönnum í Fulham í forystu eftir tæplega klukkutíma leik.

Hann skoraði þá með glæsilegu skoti á lofti sem fór í þverslána og inn í kjölfar þess að Illan Meslier hafði slegið fyrirgjöf Willians frá vinstri frá en heldur skammt.

Á 72. mínútu tvöfaldaði Andreas Pereira forystuna er hann skoraði í autt netið af örstuttu færi eftir að Meslier tókst ekki að handsama fyrirgjöf frá vinstri.

Sjö mínútum síðar minnkaði varamaðurinn Patrick Bamford muninn með skoti af markteig í kjölfar darraðardans.

Fleiri urðu mörkin ekki og syrtir því enn í álinn hjá Leeds í fallbaráttunni. Áfram er liðið í 16. sæti með 29 stig en þrjú af fjórum liðum fyrir neðan liðið, Everton, Nottingham Forest og Leicester City, eiga leik til góða.

Fulham er á góðu róli í níunda sæti deildarinnar, nú með 45 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert