Get ekki beðið eftir leiknum við City

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal. AFP/Glyn Kirk

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri toppliðs Arsenal, hlakkar til þess að að fara á Etihad-völlinn í Manchester og mæta þar ríkjandi Englandsmeisturum Manchester City í sannkölluðum toppslag í ensku úrvalsdeildinni í næstu viku.

Arsenal varð af mikilvægum stigum þriðja leikinn í röð þegar liðið bjargaði 3:3-jafntefli undir lokin gegn botnliði Southampton í deildinni í gærkvöldi.

Arsenal er enn á toppi deildarinnar, nú með 75 stig, en Man. City er í öðru sæti með 70 stig og á tvo leiki til góða. Arsenal hefur ekki unnið á Etihad-vellinum frá árinu 2015 en Arteta er þó hvergi banginn.

„Ég get ekki beðið. Þetta eru leikirnir sem maður vill spila. Þegar allt er undir verður maður að fara þangað til þess að vinna,“ sagði hann í samtali við Sky Sports eftir leikinn í gærkvöldi.

Arsenal var 1:3 undir gegn Southampton í gærkvöldi en skoraði á 88. og 90. mínútu og bjargaði þannig jafntefli, þó Skytturnar hefðu þurft á öllum stigunum þremur að halda.

„Þetta unga lið bregst við á ótrúlegan hátt þegar það þarf að fást við mótlæti. Færin sem þeir sköpuðu og karakterinn sem þeir sýndu, það var dásamlegt að horfa á það. Skilaboðin eru skýr, ég elska þá.

Við erum langt niðri en það eru engir sem búa yfir meiri vilja til þess að vinna deildina en þeir. Karakterinn og baráttuviljinn sést vel í búningsklefanum en það er alveg ljóst að við þurfum gera betur varnarlega,“ bætti Arteta við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert