Liverpool vann í dag 3:2-heimasigur á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Eftir leikinn er Liverpool í sjöunda sæti með 50 stig, en Forest er enn í 19. og næstneðsta sæti með 27, einu stigi frá öruggu sæti.
Heimamenn í Liverpool voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og sköpuðu sér ágæt færi. Komu flest þeirra eftir föst leikatriði og var Virgil van Dijk nálægt því að skora fyrsta markið með skalla af stuttu færi, en Keylor Navas varði vel í marki Forest.
Diogo Jota og Cody Gakpo komust einnig nálægt því að skora í fyrri hálfleik en Jota skallaði framhjá af stuttu færi eftir aukaspyrnu og Neco Williams bjargaði á marklínu eftir skot Gakpos í teignum, eftir horn.
Þrátt fyrir yfirburði Liverpool var staðan í hálfleik markalaus.
Sú staða stóð ekki lengi í seinni hálfleik, því Jota skallaði boltann í netið á 47. mínútu eftir að Fabinho skallaði á Portúgalann eftir horn.
Það tók Forest hins vegar aðeins fjórar mínútur að jafna og þar var að verki Neco Williams, fyrrverandi leikmaður Liverpool. Hann skaut þá í Andy Robertson í vörn Liverpool og þaðan fór boltinn af Alisson í markinu og í netið.
Jota var hins vegar hrokkinn í gang og hann kom Liverpool aftur yfir fjórum mínútum eftir það, með góðri afgreiðslu úr teignum, eftir að hann hafi tekið boltann niður með kassanum. Jota skoraði einnig tvö mörk gegn Leeds í síðustu umferð.
Forest gafst hins vegar ekki upp og Morgan Gibbs-White jafnaði aftur fyrir gestina á 67. mínútu með glæsilegu skoti úr teignum, eftir að Liverpool lenti í vandræðum með að koma boltanum í burtu eftir langt innkast.
Aftur voru heimamenn snöggir að komast aftur yfir, því Mo Salah skoraði með skoti í stöng og inn eftir sendingu frá Alexander-Arnold, þremur mínútum síðar. Bæði lið fengu fín færi til að skora á lokakaflanum og setti Brennan Johnson m.a. boltann í slána á marki Liverpool, en fleiri urðu mörkin ekki.