Manchester United mætir Manchester City í úrslitum enska bikarsins eftir sigur á Brighton í vítaspyrnukeppni á Wembley-vellinum í Lundúnum í dag. Markalaust var eftir fyrstu 120 mínútur leiksins og því var farið í vítaspyrnukeppni.
Mikið fjör var í fyrri hálfleik og fengu bæði lið fín tækifæri til að skora. Argentínumaðurinn Alexis Mac Allister var fyrstur til að ógna marki en átti þá hörkuskot beint úr aukaspyrnu, sem David De Gea, markvörður Manchester United, varði vel. Julio Enciso komst líklega næst því að skora fyrir Brighton en hann lét þá vaða rétt utan teigs en fast skot hans fór hárfínt framhjá stönginni.
United-liðið ógnaði mikið á lokamínútum fyrri hálfleiks. Bruno Fernandes fékk gott færi hægra megin í teignum en setti boltann rétt framhjá markinu og andartaki síðar töpuðu varnarmenn Brighton boltanum í öftustu línu en sem betur fer fyrir þá setti Anthony Martial boltann yfir markið þegar hann reyndi að lyfta honum fyrir Robert Sánchez af löngu færi. Christian Eriksen fékk svo fínt færi á lokaandartökum uppbótartímans í fyrri hálfleik en Sánchez varði slakt skot Danans.
Brighton byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og var mun hættulegra liðið. Enciso var nálægt því að koma liðinu yfir snemma í hálfleiknum þegar hann lét vaða við vítateigslínu eftir smá klafs í teignum en De Gea varði vel í horn. Upp úr horninu fékk Danny Welbeck svo nokkuð frían skalla á fjærstönginni en setti boltann yfir markið.
Þegar leið á seinni hálfleikinn komst United betur inn í leikinn og eftir um klukkutíma leik fékk Brasilíumaðurinn Antony tvö ágætis skotfæri fyrir utan teig en í bæði skiptin varði Sánchez frekar laus skot United-mannsins. Brighton var svo betri aðilinn síðustu 20 mínútur leiksins eða svo en hvorugu liðinu tókst þó að skora. Það var því farið í framlengingu.
Í fyrri hálfleik framlengingar var það Marcus Rashford sem fékk besta færið. Boltinn datt þá fyrir fætur hans rétt fyrir utan teig og hann átti skot sem hafði viðkomu í varnarmanni og stefndi í bláhornið. Robert Sánchez varði hins vegar stórkostlega frá honum og hélt stöðunni markalausri.
Á 111. mínútu fékk Marcus Rashford svo hörkufæri. Hann fékk þá langa sendingu upp í vinstra hornið, fór inn á völlinn og lét vaða, en skotið rétt framhjá fjærstönginni. Þremur mínútum síðar fékk svo Brighton eitt besta færi leiksins. Kaoru Mitoma og Mac Allister spiluðu þá frábærlega sín á milli, sem endaði með því að Mitoma fékk boltann í algjöru dauðafæri fyrir framan markið, en fyrsta snertingin sveik hann og De Gea náði að sparka boltanum frá.
Staðan var enn markalaus eftir framlenginguna og því var farið í vítaspyrnukeppni. Þar skoruðu bæði lið úr fyrstu sex spyrnum sínum en eftir að Solly March setti boltann hátt yfir markið tryggði Victor Lindelöf United sigurinn með frábærri vítaspyrnu.
Það verður því Manchester United sem mætir Manchester City í úrslitaleiknum en hann fer fram 3. júní.