West Ham United gerði frábæra ferð til Bournemouth á suðurströnd Englands og vann gífurlega öruggan 4:0-sigur á heimamönnum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.
Strax varð ljóst í hvað stefndi en Hamrarnir voru komnir með tveggja marka forystu eftir aðeins tólf mínútna leik. Fyrst skoraði Michail Antonio á fimmtu mínútu áður en Lucas Paquetá tvöfaldaði forystuna.
Declan Rice skoraði svo þriðja markið skömmu fyrir leikhlé.
Pablo Fornals rak svo síðasta naglann í kistu Bournemouth með fjórða markinu á 72. mínútu.
Með sigrinum fór West Ham upp fyrir Bournemouth og situr nú í 13. sæti með 34 stig. Bournemouth er í 15. sæti með 33 stig.