Newcastle kjöldró Tottenham

Alexander Isak, Jacob Murphy og Sean Longstaff fagna eftir að …
Alexander Isak, Jacob Murphy og Sean Longstaff fagna eftir að Murphy hafði skorað þriðja mark liðsins í dag. AFP/Lindsey Parnaby

Newcastle vann stórsigur á Tottenham, 6:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Leikurinn var afar mikilvægur fyrir bæði lið í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

Newcastle-liðið gekk frá leiknum á fyrstu 20 mínútunum. Jacob Murphy skoraði fyrsta markið af stuttu færi strax á 2. mínútu áður en Joelinton bætti öðru markinu við á 6. mínútu, en hann slapp þá inn fyrir vörn Tottenham, fór framhjá Hugo Lloris markverði og kláraði í autt markið.

Joelinton fagnar marki sínu í leiknum.
Joelinton fagnar marki sínu í leiknum. AFP/Lindsey Parnaby

Murphy bætti svo við sínu öðru marki og þriðja marki Tottenham á níundu mínútu með góðu langskoti og Svíinn Alexander Isak skoraði svo tvö mörk með tveggja mínútna millibili á 19. og 21. mínútu.

Tveimur mínútum eftir það gerði Christian Stellini, stjóri Tottenham, skiptingu þegar hann tók miðjumanninn Pape Sarr af velli og setti varnarmannin Davinson Sánchez inn í staðinn. Í hálfleik skipti hann svo um markvörð en Fraser Forster kom þá inn fyrir Hugo Lloris.

Markahrókurinn Harry Kane klóraði í bakkann fyrir Tottenham á 49. mínútu en á 67. mínútu skoraði varamaðurinn Callum Wilson sjötta mark Newcastle með sinni fyrstu snertingu.

Alexander Isak fagnar því að hafa skorað fimmta mark Newcastle …
Alexander Isak fagnar því að hafa skorað fimmta mark Newcastle í leiknum. AFP/Lindsey Parnaby

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur á St. James Park í Newcastle því 6:1, heimamönnum í vil.

Með sigrinum fór Newcastle upp fyrir Manchester United í þriðja sæti deildarinnar. Liðin eru þó bæði með 59 stig en United á leik til góða. Tottenham er í fimmta sæti með 53 stig og hefur leikið einum leik meira en Newcastle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert