Granit Xhaka, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, er tæpur fyrir stórleik Arsenal og Manhester City í ensku úrvalsdeildinni sem fram fer í Manchester á morgun.
Þetta tilkynnti Mikel Arteta, stjóri Arsenal, á blaðamannafundi liðsins í dag en Xhaka, sem er þrítugur, er lykilmaður í liði Arsenal.
Xhaka var ekki með Arsenal gegn Southampton um síðustu helgi þar sem hann var að glíma við veikindi en leiknum lauk með 3:3-jafntefli þar sem Arsenal jafnaði metin á lokamínútum leiksins.
Svissneski miðjumaðurinn hefur byrjað 30 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en alls á hann að baki 291 leik fyrir Arsenal í öllum keppnum.
Arsenal er með 75 stig í efsta sæti deildarinnar og City kemur þar á eftir með 70 stig en City á tvo leiki til góða á Arsenal.