Írska ungstirnið framlengdi við Brighton

Evan Ferguson fagnar marki í leik með Brighton á tímabilinu.
Evan Ferguson fagnar marki í leik með Brighton á tímabilinu. AFP/Glyn Kirk

Írski knattspyrnumaðurinn Evan Ferguson, 18 ára sóknarmaður Brighton & Hove Albion, er búinn að skrifa undir nýjan langtímasamning við félagið.

Ferguson hefur skotist upp á stjörnuhimininn á tímabilinu þar sem hann hefur skorað fjögur mörk og lagt upp tvö til viðbótar í 13 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Góð frammistaða Fergusons með Brighton varð til þess að hann var valinn í írska A-landsliðið, þar sem hann hefur leikið þrjá landsleiki og skorað eitt mark.

Telegraph greinir frá því að samningur Fergusons hafi átt að renna út sumarið 2026 en að nýi samningurinn vari lengur, þó ekki komi fram til hve margra ára hann er.

Þar segir að afráðið hafi verið að framlengja samninginn þar sem fjöldi félaga séu áhugasöm um Írann unga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert