Leeds United og Leicester City skildu jöfn, 1:1, þegar liðin áttust við í mikilvægum leik í fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.
Youri Tielemans taldi sig hafa komið gestunum í Leicester í forystu eftir aðeins sjö mínútna leik en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu.
Á 20. mínútu kom Luis Sinisterra Leeds yfir með góðum skalla af stuttu færi eftir laglega fyrirgjöf Jack Harrison.
Heimamönnum tókst að vernda forskotið lengi vel en tíu mínútum fyrir leikslok jafnaði Jamie Vardy metin fyrir Leicester.
Hann fékk þá góða stungusendingu frá James Maddison og kláraði vel.
Fjórum mínútum síðar var Vardy aftur á ferðinni og virtist vera að tryggja Leicester frækinn endurkomusigur en líkt og í tilfelli Tielemans snemma í leiknum var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Fleiri lögleg mörk voru ekki skoruð og þurftu liðin því að sættast á jafnan hlut.
Staða beggja liða er því óbreytt í grennd við fallsvæðið, þar sem Leeds er með 30 stig í 16. sæti og Leicester í 17. sæti með 29 stig.
Everton er skammt undan í 18. sæti með 28 stig og Nottingham Forest í 19. sæti með 27.