Leggja allt kapp á að kaupa Harry Kane

Það bendir allt til þess að Harry Kane muni yfirgefa …
Það bendir allt til þess að Harry Kane muni yfirgefa Tottenham í sumar. AFP/Lindsay Parnaby

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United vinna nú hörðum höndum að því að kaupa enska landsliðsframherjann Harry Kane.

Það er Telegraph sem greinir frá þessu en Kane, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.

Kane hefur verið sterklega orðaður við United undanfarnar vikur en Erik ten Hag, stjóri United, vill bæta við framherja í leikmannahóp sinn í sumar.

Samningsbundinn til sumarsins 2024

Kane er uppalinn hjá Tottenham og á að baki 429 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 274 mörk.

Framherjinn er samningsbundinn Tottenham til sumarsins 2024 en í frétt Telegraph kemur meðal annars fram að hann ætli sér ekki að skrifa undir nýjan samning við félagið.

Tottenham neyðist því til þess að selja í sumar, í stað þess að missa hann frítt, og gæti United því keypt hann á 80 milljónir punda í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert