Knattspyrnumaðurinn Alex Mac Allister mun að öllum líkindum yfirgefa enska úrvalsdeildarfélagið Brighton í sumar.
The Athletic greinir frá því að Liverpool sé líklegasti áfangastaður leikmannsins en Jürgen Klopp, stjóri liðsins, vill umbylta miðjunni hjá sér fyrir næsta keppnistímabil.
Mac Allister hefur slegið í gegn með Brighton á tímabilinu en hann gekk til liðs við enska félagið í janúar 2019.
Alls á hann að baki 102 leiki fyrir Brighton þar sem hann hefur skorað 18 mörk en hann var í stóru hlutverki með Argentínu á HM í Katar í desember á síðasta ári þegar liðið varð heimsmeistari.
Mac Allister, sem er 24 ára gamall, er samningsbundinn Brighton til sumarsins 2025 en Liverpool gæti þurft að borga í kringum 50 milljónir punda fyrir hann.