Wolverhampton Wanderers er komið langt með að tryggja sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla að ári eftir að liðið hafði betur gegn Crystal Palace, 2:0, í kvöld.
Heimamenn í Wolves komust yfir með marki eftir aðeins þriggja mínútna leik og það skoraði danski miðvörðurinn Joachim Andersen er hann varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.
Undir blálokin, á fjórðu mínútu uppbótartíma, innsiglaði Rúben Neves sigur Úlfanna með marki úr vítaspyrnu.
Með sigrinum jafnaði liðið Palace að stigum. Palace er í 12. sæti og Wolves í 13. sæti.
Bæði lið eru með 37 stig, níu stigum fyrir ofan fallsæti, þegar fimm umferðir eru óleiknar.