Frábært gengi Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla heldur áfram. Í kvöld lagði liðið Fulham að velli, 1:0, og fór með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar.
Sigurmarkið kom um miðjan fyrri hálfleik. Það skoraði Tyrone Mings með góðum skalla eftir hornspyrnu John McGinn frá hægri.
Gengi Villa hefur verið hreint magnað eftir að Spánverjinn Unai Emery tók við stjórnartaumunum hjá liðinu í október síðastliðnum og þá sérstaklega undanfarið.
Liðið hefur nú unnið átta leiki og gert tvö jafntefli í síðustu tíu deildarleikjum sínum.
Þetta góða gengi hefur fleytt Villa upp í fimmta sæti, þar sem liðið er með 54 stig, fimm stigum minna en Manchester United í fjórða sæti, en hefur þó leikið þremur leikjum meira.