Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, kvaðst hæstánægður með að vera nú með Englandsmeistaratitilinn í höndum sér.
Ríkjandi Englandsmeistarar Man. City hafa verið að elta topplið Arsenal allt tímabilið. Skytturnar hafa hins vegar aðeins unnið sér inn þrjú stig í síðustu fjórum leikjum eftir að hafa steinlegið í toppslagnum gegn Man. City í gærkvöldi.
„Þetta var mikilvægur leikur, ekki úrslitaleikur en mikilvægur. Við lékum mjög vel. Ég þekki andstæðinga okkar, þeir eru enn á toppnum.
Ég veit að það hljómar barnalega en við erum enn á eftir þeim, við erum enn þar. En auðvitað finnst mér betra að vera í þeirri stöðu sem við erum núna því núna er þetta í okkar höndum,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi eftir leikinn.
Man. City er enn í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Arsenal, en á tvo leiki til góða og getur því með sigrum í þeim náð fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar.
„Ég myndi elska það að ná í sex stig í þessum leikjum, við verðum að vinna þá, en mér finnst það betra því þetta veltur á okkur sjálfum.
Þar til í dag [í gær] hefði ég viljað vera í stöðu Arsenal því ef Arsenal hefði unnið okkur væri þetta í þeirra höndum. En nú er þetta í okkar höndum,“ bætti spænski stjórinn við.