Tottenham og Manchester United gerðu 2:2 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en leikurinn fór fram á Tottenham Stadium í London.
Manchester United er þá með 60 stig í fjórða sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Newcastle, en Tottenham lyfti sér upp fyrir Aston Villa og Liverpool og í fimmta sætið með 54 stig.
Manchester United var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og var með 2:0 forystu þegar flautað var til hálfleiks en í seinni hálfleik voru heimamenn miklu betri og náðu að jafna metin.
Það var Jadon Sancho sem kom Manchester United yfir strax á 7. mínútu leiksins en hann fékk þá góða sendingu frá Marcus Rashford, plataði tvo varnarmenn Tottenham, og setti boltann í hægra hornið. Mjög smekklegt mark hjá Sancho.
Tottenham fékk heldur betur tækifæri til að jafna metin á 43. mínútu en þá komst Ivan Perisic einn á móti David de Gea en de Gea varði skotið mjög vel frá Perisic og strax í kjölfarið brunuðu leikmenn Manchester United upp völlinn og skoruðu annað markið sitt. Bruno Fernandes átti langa sendingu á Marcus Rashford sem var mun fljótari en Eric Dier og átti ekki í vandræðum að koma boltanum framhjá Fraser Forster og í netið.
Manchester United var mun sterkara en Tottenham í fyrri hálfleik og var forysta liðsins í hálfleik verðskulduð.
Leikmenn Tottenham komu mjög ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn á 56. mínútu í 2:1 eftir mikla baráttu í teig Manchester United en þá átti Pedro Porro frábært skot að marki Manchester United sem söng hreinlega í netinu. Glæsilegt mark hjá Porro.
Áfram héldu heimamenn að sækja og reyna að jafna metin og það bar árangur á 79. mínútu þegar Harry Kane átti fráæra sendingu á Son Heung-min sem setti boltann í markið af stuttu færi og jafnaði metin við mikinn fögnuð heimamanna, 2:2.
Á lokamínútum leiksins fengu bæði lið tækifæri til að skora en niðurstaðan var 2:2 jafntefli í mjög kaflaskiptum leik. Næsta verkefni Tottenham í ensku úrvalsdeildinni er leikur gegn Liverpool á Anfield á sunnudaginn en Manchester United mætir liði Aston Villa á Old Trafford, einnig á sunnudaginn.