Enska knattspyrnufélagið Brighton & Hove Albion hefur komist að samkomulagi við Watford um kaup á brasilíska framherjanum Joao Pedro.
Pedro er 21 árs og hefur leikið vel fyrir Watford á yfirstandandi tímabili, þar sem liðið er um miðja B-deild og á ekki lengur möguleika á því að komast í umspilssæti um laust sæti í úrvalsdeildinni.
Pedro hefur skorað 11 mörk í 35 deildarleikjum á tímabilinu til þessa.
Samkvæmt Sky Sports verður gengið frá kaupunum í sumar þegar félagaskiptaglugginn opnar að nýju og greiðir Brighton metupphæð til þess að tryggja sér þjónustu brasilíska sóknarmannsins.
Samkvæmt ítalska félagaskiptasérfræðingnum Fabrizio Romano nemur sú upphæð um 30 milljónum punda, en núverandi félagsmet Brighton er 20 milljónir punda, sem það reiddi af hendi fyrir Adam Webster sumarið 2019.