Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, skaut á Manchester United á blaðamannafundi liðsins í dag en Liverpool tekur á móti Tottenham í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.
Liverpool situr sem stendur í 7. sæti úrvalsdeildarinnar með 53 stig, 7 stigum frá Meistaradeildarsæti en liðið hefur valdið miklum vonbrigðum á tímabilinu.
Liverpool var ekkert langt frá því að vinna fjórfalt á síðustu leiktíð þar sem liðið varð bæði bikarmeistari og deildabikarmeistari. Þá tapaði liðið í úrslitum Meistaradeildarinnar gegn Real Madrid og endaði í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Manchester City.
„Staðan er bara þannig að ef okkur tekst ekki að afreka eitthvað mjög sérstakt á lokametrunum þá verður 7:0-sigurinn gegn Manchester United það eina sem fólk mun muna eftir,“ sagði Klopp.
„Það er ólíklegt að við verðum í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en Evrópudeildin er möguleiki og það væri frábært.
Mér finnst við hafa átt góð augnablik á tímabilinu en okkur hefur skort allan stöðugleika. Það er eitthvað sem við erum að vinna í að laga,“ bætti Klopp við.