Sean Dyche, knattspyrnustjóri Everton, er ekki af baki dottinn þrátt fyrir skellinn sem liðið fékk gegn Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.
Everton tapaði leiknum í gær 1:4 á heimavelli og er í fallsæti, 19. sæti, þegar liðið á fimm leiki eftir.
Stutt er þó í öryggið þar sem Everton er einungis tveimur stigum á eftir Leeds United og Nottingham Forest í 16. og 17. sæti og einu stigi á eftir Leicester City í 18. sæti.
„Ég tel okkur geta það,“ svaraði Dyche, er hann var á blaðamannafundi spurður hvort Everton gæti haldið sér uppi.
„Þetta er svipað lið og vann Arsenal, þannig að það má til sanns vegar færa að þetta sé hægt. Við þurfum að finna broddinn úr þeirri frammistöðu á ný,“ hélt hann áfram og vísaði til síns fyrsta leiks við stjórnvölinn hjá Everton, 1:0-sigurs á toppliði Arsenal.
Þrátt fyrir stórtap í gærkvöldi var Everton síst lakari aðilinn til að byrja með, en það gjörbreyttist þegar Callum Wilson kom Newcastle í forystu.
„Við sýndum þann brodd í fyrri hálfleik og stóðum okkur mjög vel. Mörk breyta leikjum, ekki bara stöðunni heldur tilfinningunni sem maður hefur fyrir frammistöðunni.
Maður er enn þá með í leiknum en maður getur ekki látið mörk hafa svona mikil áhrif á frammistöðuna,“ sagði Dyche einnig.