Brighton valtaði yfir Úlfana – dramatískur sigur Brentford

Danny Welbeck skoraði tvö.
Danny Welbeck skoraði tvö. AFP/Ben Stansall

Brighton fór illa með Wolves og vann 6:0-heimasigur er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Brighton byrjaði með miklum látum því Deniz Undav skoraði fyrsta markið á 6. mínútu og sjö mínútum síðar bætti Pascal Gross við öðru marki.

Gross var aftur á ferðinni á 26. mínútu og Danny Welbeck fullkomnaði stórkostlegan fyrri hálfleik hjá Brighton með fjórða markinu á 39. mínútu.

Brentford vann dramatískan sigur á Nottingham Forest.
Brentford vann dramatískan sigur á Nottingham Forest. AFP/Adrian Dennis

Welbeck bætti við sínu öðru marki og fimmta marki Brighton á 48. mínútu og Undav gerði sitt annað mark og sjötta markið á 66. mínútu og þar við sat.

Brentford vann dramatískan heimasigur á Nottingham Forest, 2:1. Danilo kom Forest yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks og voru gestirnir með 1:0-forskot í hálfleik.

Ivan Toney jafnaði fyrir Brentford á 82. mínútu og Joshua Dasilva gerði sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartímans. Úrslitin eru áfall fyrir Forest, því liðið er aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert