Einbeittir á næsta leik

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP/Paul Ellis

„Hvað sem gerist á síðustu vikum tímabilsins hefur mikið að segja fyrir næsta tímabil,“ sagði Jür­gen Klopp, knatt­spyrn­u­stjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Li­verpool, á fréttamannafundi í aðdraganda leiks liðsins gegn Tottenham í deildinni á Anfield í dag.

„Við þurfum að vera einbeittir á næsta leik. Reyna að vinna næsta leik. Við þurfum að reyna að leika sannfærandi fótbolta og reyna að leika þannig að við séum óþægilegur andstæðingur,“ sagði hann.

„Ef við fáum ekkert fyrir það í lok tímabils þá var það vegna stöðunnar sem við komum okkur í fyrr á leiktíðinni.“

Býst við sterku Tottenham-liði

Liverpool hefur unnið síðustu þrjá leiki og liðið er ósigrað í síðustu fimm leikjum en Klopp sagði þó allt of snemmt að tala um að liðið hafi náð upp stöðugleika.

Tottenham hefur ekki unnið Liverpool í síðustu 11 viðureignum liðanna en Klopp sagðist búast við að Tottenham-liðið yrði upp á sitt besta í dag.

Leikur Liverpool og Tottenham á Anfield hefst klukkan 15.30 í dag.

Mbl.is fylgist vel með og færir ykkur það helsta í beinni textalýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert