Enski landsliðsmaðurinn Harry Maguire gæti yfirgefið enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United, þar sem hann fær lítið að spreyta sig með liðinu.
Daily Mail greinir frá að Maguire sé orðinn þreyttur á bekkjarsetu hjá United og vilji færa sig um set til að eiga meiri möguleika á að halda sæti sínu í byrjunarliði enska landsliðsins.
Maguire hefur aðeins fimm sinnum verið í byrjunarliði United í ensku úrvalsdeildinni eftir 0:4-tap liðsins gegn Brentford í ágúst. Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, hefur m.a. frekar spilað bakverðinum Luke Shaw í miðverðinum.
Þrátt fyrir það hefur Maguire enn verið í lykilhlutverki hjá enska landsliðinu, en ofangreindur miðill segir Maguire vera áhyggjufullan að missa landsliðssætið, verði hann áfram í algjöru aukahlutverki hjá Manchester-liðinu.