Allardyce að taka við Leeds?

Sam Allardyce hefur marga fjöruna sopið í enska fótboltanum.
Sam Allardyce hefur marga fjöruna sopið í enska fótboltanum. AFP

Sú saga gengur nú fjöllum hærra að Sam Allardyce sé að snúa aftur í knattspyrnuþjálfun til þess að taka við stjórnartaumunum hjá Leeds United út tímabilið.

The Athletic greinir frá því að sæti Javi Gracia, sem tók aðeins við liðinu fyrir tíu vikum síðan, hitni stöðugt eftir hræðilegt gengi í aprílmánuði.

Liðið tapaði fjórum af fimm leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í mánuðinum og fékk á sig 18 mörk í þeim. Stórtöpum á heimavelli fyrir Crystal Palace og Liverpool var fylgt eftir með slælegri frammistöðu gegn nýliðum Bournemouth í gær, þar sem liðið tapaði 1:4.

Frammistaðan í gær er talin munu binda enda á stjóratíð Gracia.

Allardyce, sem er 68 ára gamall, var síðast knattspyrnustjóri West Bromwich Albion síðari hluta tímabilsins 2020/2021, en tókst þá ekki að halda liðinu uppi í úrvalsdeildinni.

Því eru liðin tæp tvö ár síðan hann var síðast í starfi.

Samkvæmt The Athletic er Allardyce ofarlega á blaði hjá Leeds og fari svo að hann verði ráðinn til bráðabirgða hefur hann aðeins fjóra leiki til þess að bjarga liðinu frá falli, en liðið er í 17. sæti með 30 stig, jafnmörg og Leicester City sæti ofar og Nottingham Forest sæti neðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert