Klopp er í miklum vandræðum

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP/Paul Ellis

Jür­gen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er í „miklum vandræðum“ eftir að enska dómarasambandið, PGMOL, gaf út yfirlýsingu til stuðnings Paul Tierney dómara eftir gagnrýni Klopps. 

Þetta vill fyrrum leikmaður Liverpool Dean Saunders meina en Klopp fékk gult spjald fyrir fagnaðarlæti sín í ótrúlegum 4:3-sigri Liverpool á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær. Klopp hjólaði svo í Tiernery í viðtali eftir leik þar sem hann sakaði dómarann um að hafa eitthvað á móti sér og liði sínu. 

„Fagnaðarlætin mín voru óþarfi, sem ég viðurkenni. En það sem Tierney sagði við mig þegar hann gaf mér gula spjaldið er ekki í lagi,“ sagði Klopp meðal annars. 

Hinsvegar vísaði dómarasambandið fullyrðingum Klopp á bug og sagði í yfirlýsingu: „PGMOL er meðvitað um ummæli Jürgen Klopp eftir leik liðs hans við Tottenham Hotspur.

Dómarar í ensku úrvalsdeildinni eru teknir upp í öllum leikjum í gegnum fjarskiptakerfi og eftir að hafa farið yfir hljóðbrotið frá Paul Tierney dómara frá leiknum í gær getum við staðfest að hann hafi komið fram á fagmannlegan hátt allan tímann, þar á meðal þegar hann gaf Klopp aðvörun. Þess vegna vísum við á bug öllum ábendingum um að dómgæsla og hegðun Tierney hafi verið óviðeigandi.“

Þegar þú efast um heillindi dómarans ertu í vandræðum

Dean Saunders var spurður út ummæli Klopp í morgunþættinum The Sports Breakfast, og vill hann meina að Klopp sé í miklum vandræðum. 

„Ég hef verið knattspyrnustjóri og það getur alveg farið í þig að ákveðnum dómurum líkar illa við þig. Klopp er sannfærður um að Tierney líki illa við sig. 

Ég held það sé ekki satt og ég held að þegar þú byrjar að efast um heillindi dómarans þá ertu í miklum vandræðum. Hann er í miklum vandræðum fyrir það sem hann sagði,“ sagði Saunders. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert