Ekki spila póker við mig

Jordan Pickford, markvörður Everton, lagði þungt lóð á vogarskálarnar fyrir sitt lið í  fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í gærkvöld þegar hann varði vítaspyrnu frá James Maddison hjá Leicester í botnbaráttuleik liðanna.

Þegar staðan var 2:1 fyrir Leicester fór Maddison á vítapunktinn og gat komið liði sínu tveimur mörkum yfir. Pickford varði frá honum og Everton náði síðan dýrmætu stigi með því að jafna metin í 2:2.

Pickford skýrði frá því eftir leik að hann hefði gabbað Maddison með því að standa kyrr og verja þar með spyrnuna sem kom á mitt markið.

Þá veittu sjónvarpsmenn því eftirtekt að á vatnsflösku sem Pickford geymdi við mark sitt stóð stórum stöfum að Maddison skyti á mitt markið í 60 prósentum tilfella.

Pickford þóttist ætla að fara í annað hvort hornið en stóð síðan kyrr í miðju markinu og varði örugglega.

„Ég vann heimavinnuna og var búinn að ákveða í morgun hvað ég myndi gera. Hann er góður leikmaður og gerði ráð fyrir því að ég færi í annað hvort hornið, en ég gabbaði hann tvisvar. Madders þarf að læra af þessu. Ekki spila póker við mig. Þetta  var mikilvægt augnablik og ég er ánægður með að hafa farið - til þess er ég í markinu," sagði Jordan Pickford við Sky Sports.

Vítaspyrnan kemur eftir tvær og hálfa mínútu í myndskeiðinu:

James Maddison og Jordan Pickford ræða málin í leikslok í …
James Maddison og Jordan Pickford ræða málin í leikslok í gærkvöld. AFP/Darren Staples
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert