Tammy Abraham, framherji knattspyrnuliðs Roma á Ítalíu, er einn þeirra leikmanna sem forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United horfa nú til, takist liðinu ekki að klófesta Harry Kane, framherja Tottenham, í sumar.
Það er enski miðillinn Mirror sem greinir frá þessu en Abraham er uppalinn hjá Chelsea á Englandi.
Hann gekk til liðs við Roma sumarið 2021 fyrir 34 milljónir punda en hann hefur skorað 36 mörk og lagt upp önnur 12 í 98 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.
Harry Kane hefur verið sterklega orðaður við United undanfarna mánuði en hann verður samningslaus sumarið 2024.
Tottenham gæti því neyðst til þess að selja hann í sumar en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið.
Erik ten Hag, stjóri United, ætlar sér að kaupa framherja í sumar en United er ekki tilbúið að borga í kringum 100 milljónir punda fyrir Kane og því gæti félagið horft annað ef illa gengur að semja við Tottenham.