Diogo Jota, sóknarmaður Liverpool, hefur ekki æft með liðinu frá því að hann skoraði dramatískt sigurmark í 4:3-sigri á Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sunnudag.
Því er óvíst hvort hann getið tekið þátt í leik Liverpool gegn Fulham í deildinni annað kvöld. Jota meiddist í leik gegn West Ham United í síðustu viku og æfði því ekki fyrir leikinn gegn Tottenham
„Í leiknum gegn West Ham fékk hann högg á bakið og högg í rifbeinin. Hann gat ekki æft fyrir leikinn gegn Tottenham en gat þó spilað án þess að fá sprautu.
Hann fékk annað högg þegar hann kom inn á [gegn Tottenham]. Hann hefur ekki getað æft síðan svo það leikur vafi á því hvort hann verði klár fyrir morgundaginn,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, í samtali við heimasíðu félagsins.
Hann greindi um leið frá því að Roberto Firmino hefði hafið æfingar að nýju en að brasilíski framherjinn gæti þó ekki tekið þátt í leiknum gegn Fulham.