Jürgen Klopp kærður

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP/Ben Stansall

Enska knattspyrnusambandið hefur tekið ákvörðun um að kæra Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, fyrir ummæli sín um dómarann Paul Tierney eftir 4:3-sigur liðsins á Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

Klopp gagnrýndi Tierney að leik loknum, en þeir hafa eldað grátt silfur saman undanfarin ár þar sem þýski stjórinn hefur oft ekki botnað upp né niður í stórum ákvörðunum dómarans í leikjum sem Tierney hefur dæmt.

Vísaði Klopp í viðtölum eftir leik á sunnudag til sögu þeirra og kvaðst meðal annars ekki vita hvað Tierney hefði á móti Liverpool.

Af þessum sökum hefur enska knattspyrnusambandið ákveðið að kæra Klopp þar sem honum er gefið að sök að hafa vegið að heiðri Tierney sem dómara.

Á blaðamannafundi í dag sagði Klopp að hann hefði betur látið ýmislegt ósagt, þó að hann teldi sig sig ekki hafa farið með rangt mál.

Klopp hefur til föstudagsins 5. maí til þess að bregðast við kærunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert