Betur fór en á horfðist hjá enska knattspyrnumanninum Sean Longstaff, miðjumanni Newcastle United, sem meiddist á fæti eftir að James Tarkowski, miðvörður Everton, traðkaði á honum í leik liðanna í síðustu viku.
Óttast var að Longstaff, sem missti af leik Newcastle gegn Southampton um síðustu helgi, hafi fótbrotnað en svo er þó ekki.
„Sean fékk högg á fótinn og því sendum við hann í myndatöku, sem leiddi í ljós að hann er ekki brotinn. Við vonum að þetta hafi einungis verið slæmt högg og að hann geti fljótlega snúið aftur.
Ég vona að leikurinn gegn Arsenal komi ekki of snemma fyrir hann en það er erfitt að segja til um það,” sagði Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle, á blaðamannafundi í gær.
Newcastle fær Arsenal í heimsókn næstkomandi sunnudag.