Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kveðst sjá eftir þeim orðum sem hann viðhafði um dómarann Paul Tierney eftir sigurinn gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn en segist ekki hafa logið neinu um samskipti þeirra.
Klopp reiddist mjög þegar Tottenham fékk aukaspyrnu rétt fyrir leikslok, sem leiddi af sér jöfnunarmark, 3:3. Þegar Diogo Jota skoraði sigurmark Liverpool í kjölfarið fagnaði Klopp með því að hlaupa til fjórða dómarans og öskra til hans.
Klopp fékk gula spjaldið fyrir vikið og spurður eftir leikinn út í samskipti sín við Tierney við það tækifæri sagði Klopp að það sem Tierney hafi sagt við sig hafi „ekki verið í lagi.“
PGMOL, sem heldur utan um dómarana í deildinni, gaf út eftir leikinn að Tierney hefði komið fagmannlega fram allan tímann, og líka þegar hann gaf Klopp áminninguna, og tók fram að allt sem dómarar segðu væri tekið upp.
„Ég geri ráð fyrir að mér verði refsað því dómararnir telja að ég hafi vegið að heiðarleika hans. En á þessu augnabliki lýsti ég bara mínum tilfinningum. Öll þessi uppákoma hefði ekki átt að eiga sér stað. Þetta voru tilfinningar, ég var reiður. Þess vegna fagnaði ég eins og ég gerði.
Ég reyndi að róa mig niður eftir leikinn en tókst það ekki nógu vel, þannig að ég sagði það sem ég sagði í viðtölunum. Ég veit að Tierney er ekki hlutdrægur, en það er ákveðin saga á milli okkar tveggja, því verður ekki neitað.
Ég er ekki langrækinn maður, en það hefur ýmislegt gerst í mikilvægum leikjum. Ekki af ásetningi, en það gerðist eftir sem áður. Dómararnir eru mjög reiðir yfir því sem ég sagði. Sumt af því hefði betur verið ósagt, en ég laug engu," sagði Klopp á fréttamannafundi í dag.
Tierney og Klopp hafa eldað grátt silfur í nokkrum leikjum á undanförnum árum þar sem Klopp hefur verið ósáttur við ákvarðanir dómarans.