Martin Cassidy, framkvæmdastjóri stuðningsmannasamtaka enskra knattspyrnudómara, hefur kallað eftir því að stig verið dregin af liðum þar sem leikmenn og stjórar fara yfir strikið í samskiptum sínum við dómara.
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, fór mikinn á hliðarlínunni í leik Liverpool og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn og talaði meðal annars um það í viðtölum eftir leikinn að Paul Tierney, dómari leiksins, hefði eitthvað á móti Liverpool.
Þetta er í annað sinn á tímabilinu sem Klopp lendir í vandræðum eftir hegðun sína á hliðarlínunni en hann fékk að líta rauða spjaldið í sigri Liverpool gegn Manchester City hinn 16. október á síðasta ári.
„Klopp á að fara í þriggja leikja bann hið minnsta fyrir hegðun sína um helgina,“ sagði Cassidy í samtali við BBC.
„Það er okkar skoðun, í stuðningsmannasamtökum enskra dómara, að enska knattspyrnusambandið eigi að skoða það alvarlega að beita stigafrádrætti þegar stjórar og leikmenn haga sér illa í garð dómara,“ bætti Cassidy við.
Klopp gæti verið í vandræðum eins og áður hefur komið fram en hann fékk eins leiks bann og 30.000 punda sekt eftir hegðun sína í leiknum gegn City í október.